Úrslit 2022

Verkefnið var lambhúshetta og þemað “Huldufólk samtímans”. 

Hér má sjá lambhúshetturnar sem tóku þátt í keppninni 2022.

Fyrst koma 3 efstu sætin og svo allar hinar í stafrófsröð ásamt sögunum sem þeim fylgdu.

1. sæti: Sólrún Harðardóttir. Ég og Hafrún

Þrjár stjörnubjartar og norðurljósum prýddar febrúrar nætur í röð hannaði ég í huganum lambhúshettu þá er hér fylgir. Á milli svefns og vöku átti ég í spennandi og skapandi samræðum við huldukonu um hettuna. Hún kveikti hugmyndir og benti mér á ýmislegt sem gildir í hulduheimum sem ég vissi ekkert um. Ég hafði fengið garn í jólagjöf sem mér datt í hug að nota. Þegar ég tók garnið fram eftir fyrstu draumanóttina varð ég nokkuð hissa á samhenginu. Ég hafði greinilega ekki meðtekið það í annríki jólanna að garnið var kallað hulduband og litur þess febrúarnótt! Burtséð frá því taldi ég þennan lit, eða öllu heldur fjölbreytt litbrigði, henta huldufólki einkar vel. í bandinu má meðal annars sjá liti eðalmálma, skrautsteina, hafs og leifturs norðurljósa.

Við huldukonan ræddum að mögulega mætti koma kúptu lagi huliðshjálms á lambhúshettuna. Að geta brugðið á sig huliðshjálmi er jú ansi áríðandi fyrir huldufólk. Ég reyndi. - Að morgni fann ég svo glansandi fallega skelplötu við rúmstokkinn. Hún skyldi vera skraut, en ekki síður lykillinn að því að verða ósýnileg/ur. Ég náði ekki fullkomlega aðferðinni en þrýsta skyldi þétt á plötuna með baugfingri, vera með lokuð augu, snúa í átt að tungli eða hafi og einbeita sér. Svo þurfti „loftnet” sem stæði út í loftið útfrá hvirfli, til að mynda samband á milli mannheima og hulduheima. Það gati einnig hjálpað til við að meta vindátt. Auk þess er þessi dindill svolítið spaugilegur og í anda fólks sem fer sínar leiðir. Huldufólk gengur aldrei með venjuleg höfuðföt.

Lambhúshettan er samsett úr tveimur hlutum, það er húfa (eða hjálmi!) og hálskraga. Vegna þessa er hægt að nota hana á ólíkan hátt eftir veðri. Kostirnir eru reyndar fleiri: Huldukonan mín var með sítt og mikið hár. Það á við um flestar. Með því að hafa lambhúshettuna samsetta fundum við leið til að fallegt hár fengi notið sín.

2. sæti: Ragnheiður Guðmundsdóttir. Hugarflug

Covid. Einangrun. Sóttkví. Gríma.

Þekkið þið þessi orð? Við erum búin að lifa við þetta síðustu tvö árin og þar af leiðandi höfum við öll einhvern tíman verið huldufólk nútímans á þessum tveim árum. Í einangrun, sóttkví eða að minnsta kosti með grímu. En ekkert getur stoppað hugarflugið, eða hvað? Hugurinn getur flogið og ferðast og upplifað. Er þetta ekki alveg frábært? Frelsi þrátt fyrir fjötra. Þessi lambhúshetta er hönnuð fyrir okkur sem leyfum ímyndunaraflinu að blómstra þrátt fyrir skorður. 

3. sæti: Sigrún Ólöf Einarsdóttir. LÚNA

 

DULA

Þegar ég hugsaði um huldufólk samtímans, var það fyrsta sem mér datt í hug var ENDURNÝTING, síðan hugsaði ég um, hvaða litur hefði líklega ekki verið til í íslenskri garn litaflóru á þeim tímum sem trú á huldufólk var allsráðandi og þá lá beinast við að nota appelsínugult garn. Á vísindavefnum fann ég þessa tilvitnun....... Elsta dæmið í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans um orðið appelsína er úr ritinu Sonur gullsmiðsins á Bessastöðum. Bréf Gríms Thomsens og varðandi hann 1838-1858 en bréfið sem um ræðir er frá 1858. Þar stendur „þakklæti fyrir appelsínur“. Það segir mér að orðið appelsínugulur hafi líklega ekki verið þekkt sem slíkt fyrir þann tíma, hér á landi. En í dag er appelsínugulur litur mikið notaður í útivistarfatnað, þar sem hann sést vel í náttúrunni og er það gott ef leita þarf að fólki í vanda. Þá var komin ákvörðun um lit sem notaður yrði í lambhúshettuna, appelsínugulur fyrir nýja tíma, hvítur sem getur táknað snjó eða mjólk, sem bæði eru og voru hluti af lífi okkar á Íslandi, síðan rakti ég upp gamalt sjal og notaði sem tengingu í verkið, þar er komin endurnýting. Í þessari lambhúshettu er kambgarn og einband.

Eldlínan

Útkall. Þetta orð hefur verið mikið í fréttum í ár ásamt orðunum björgun og hjálparsveitin. Ég hef oft hugsað til þeirra sem hafa farið úr við erfiðar aðstæður til að hjálpa og bjarga þeim sem er hætt komið. Fólk sem er í eldlínunni á hrós skilið. Þetta er svo sannarlega huldufólk nútímans, því oftar en ekki er minnst á verkefnið eins og útkallið, árangurinn eins og björgunina eða starfshópinn eins og hjálparsveitina frekar en einstaklingana sem gera þessi góðu verki. Þessi lambhúshetta er tileinkuð þessum einstaklingum sem vinna frábær verk án þess að þeim sé sérstaklega hampað fyrir það.

 Embla Yggdrasils

Huliðshjálmur. Lambhúshetta fyrir fullorðna, ein stærð. Undanfarin ár hef ég verið að skoða sagnaheiminn okkar og viðað að mér ýmsu um norræna goðafræði. Ásynjur og ásar eiga ýmsa muni sem myndu gagnast vel í nútímanum. Huliðshjálmur er máttugur töfrahlutur sem verndar þann sem ber hann fyrir öllu illu. Með honum fer viðkomandi auðveldlega huldu höfði eins og nafnið kemur til kynna og hann veitir þeim sem Huliðshjálminn ber öruggt skjól. Eins og landið okkar ver huldufólk samtímans í hringiðu nútímans. Núna er ég búsett erlendis sem kallar alltaf fram ákveðna heimþrá í hjartanu. Íslenska hraunið mosafléttur, stuðlaberg og grámóskulegur himinn sameinast í töfrandi og hlýrri lambhúshettu úr tvöföldum plötulopa. Ísland í einni flík sem læknar verstu heimþrána. Dúnmjúk og skotheld lambhúshetta sem er á sama tíma ósamhverf sem heillar augað. Huliðshjálmur sem verndar þann sem ber hann gegn veðri og vindum og heldur manni ósýnilegum jafnvel fyrir eldrauðri lægð. Nafnið kom til mín í göngutúr um hraunin í Hafnarfirði þar sem janúarvindurinn eirði engu í vegi sínum. Innblásturinn að hönnuninni kom bæði frá náttúrunni allt í kringum Hafnarfjörð sem og uppáhaldinu mínu Hljóðaklettum og fallegu litunum í plötulopanum sem mér fannst augljóst val í flíkina. Fyrir valinu varð plötulopi, tvöfaldur, því hann er bæði sterkur, léttur og lungamjúkur. Dásamlegt þelið í ullinni tryggir að hún sé hlý og notaleg. Ég vildi hafa flík sem ekki dregst auðveldlega til og valdi því klukkuprjón. Ég notaðist við tvenn mynstur, um hálsinn vefjast mosafléttur í ljósgrænum ungum mosa móts við veðrað basalitað hraun. Um höfuðið fléttast stuðlaberg í dökkum og ljósum gráum sem svo leysast upp og hverfa saman við grámóskulegan himin. Tölurnar eru úr kindarhornum sem mér áskotnaðist í listabúð á Vestfjörðum, nánar tiltekið Þingeyri. Hver tala er einstök eins og blessuð sauðkindin sem er auðfundin um land allt. Huliðshjálmur er því bæði í senn, óður til landsins míns og elsku kindarinnar sem gefur af sér þessa dásamlegu einstöku ull.

Feluleikur

Huldufólk hefur lengi verið okkur Íslendingum hugstætt. Við eigum sögur af samskiptum manna og huldufólks, oft sögur af mikilli vináttu og hjálpsemi beggja vegna. Við eigum líka sögur af því hvernig fer þegar mannskepnan fer eigin leiðir og á svig við vilja huldufólksins. Hver þekkir ekki sögur af grjóti sem var fært vegna vegagerðar og eintóm vandamál sóttu þá sem unnu verkið heim? Huldufólk nútímans er öðruvísi. Það ber ekki endilega mikið á því frekar huldufólki fortíðar og er stundum í jaðrinum, stöku sinnum nær ósýnilegt en getur líka fundið sína leið til að vekja athygli. Það á sér ekki alltaf málsvara og er stundum órétti beitt vegna þess að það fellur ekki í eitthvert norm. Eins og huldufólk fortíðar er huldufólk nútímans ekki allt eins. Hvert er þá huldufólk nútímans? Og hvernig getur ein hvít lambhúshetta sagt sögu þeirra? Hún gerir það með litum. Litum hópa sem oft eiga undir högg að sækja vegna veikinda eða ýmissa mála annarra. Sjá má bleika litinn, einkenni brjóstakrabbameins, fjólubláan lit Alzheimar samtakanna, regnbogafána þeirra sem tilheyra LGBT, rauða litinn t.d. fyrir hjartasjúkdóma, grænfánann, blátt fyrir Huntington, svart fyrir sorgina, grænt fyrir Kabuki heilkenni. Margir litanna eru tákn fyrir fleiri en einn hóp en allir eiga litirnir heima á hettunni af því að...

...við erum öll,hver sem við erum og hvernig sem við erum, hluti af litrófi heimsins.

Hettan er prjónuð úr einföldum plötulopa. Efnið var valið með tilliti til nokkurra þátta. Eitt er að óspunnin ull er eins nálægt náttúrunni og hægt er, annað er að plötulopinn er afar léttur einþátta, hann heldur vel hita á þeim sem notar flíkina það er auðvelt að tengja saman þræði án þess að þurfa að ganga frá þeim með nál og það er frekar auðvelt að ná í hann nánast hvar sem er á landinu. í hettunni eru fleiri þættir en litirnir. Hettan sjálf er prjónuð fram og notaðar sléttar og brugðnar umferðir til að mynda stuðla, með vísun í stuðlaberg íslands. Hún er prjónuð í einu lagi, hvergi þarf að sauma. Hettan er stór og getur varið viðkomandi vel fyrir kulda en efnið er létt og því er stærðin ekki fyrirstaða.

Fjóla

Þegar ég var barn var það venja, að nágrannafólk okkar kom heim að spila um jólin, en við vorum hjá þeim á gamlárskvöld. Svo var eitt gamlárskvöld að við fórum að spila. Veður var stillt og bjart af tunglsljósi. Það vakti undrun að dyrnar stóðu upp á gátt, þegar við komum heim, einhver tímann eftir miðnætti. Og ekki nóg með það, blessaði, stillti hundurinn lá uppi í rúmi foreldra minna. Hann var aldrei vanur að fara upp á hæðina, þar sem herbergið var, hvað þá að fara upp í rúmin, en mikla ást hafði hann á föður mínum. Hvað var eðlilegra en að álíta að huldufólk hefði komið í heimsókn?! Huldufólk er ekki sagt vera jafn litaglatt og álfar og gætu því litir hettu minnar höfðað til þeirra.  

Gaddvermir

Oft hefur verið kalt í vetur og allt gaddfrosið. Ég hugsaði að það væri nú sniðugt að búa til lambhúshettu sem væri hlý og gæti passað á alls konar fólk í mismunandi aðstæðum, karla eða konur. Annað sem er sniðugt við Gaddvermi er að það þarf ekkert stroff eða aðra kanta þegar hann er prjónaður því hann er algerlega eins á réttunni og röngunni og jafn mikið af réttum og brugðnum lykkjum. Hönnunin er einföld og hentar fólki með mismikla reynslu í prjóni. Hér á landi eru aðstæður krefjandi stundum. Margt nútímafólk er hart af sér og þrífst vel þrátt fyrir krefjandi aðstæður, sem betur fer. Gangi þessu hörku fólki og þeirra aðstandendum bara vel á lífsleiðinni. Þá hugsa ég til kaktusar sem vex í Arizona og heitir Saguaro. Þetta eru mjög sérstakur kaktus. Hann er með mörg „rif“ sem raðast í hring innan stönguls og virkar eins og harmonika eftir því hvað kaktusinn er með mikinn vökva. Þegar kaktusinn er vökvamikill þenst hann út og þegar þurrkar herjar á skreppur hann saman. Hann þrífst líka vel þrátt fyrir þessar krefjandi aðstæður og alls konar fuglar leita jafnvel skjóls í bol þessa kaktusar sér til lífsbjargar. Þannig að þrátt fyrir ytri hörku þá er hann þægilegur að innan og margur fuglinn nýtur góðs af.

Gaddvermir er hannaður með þennan kaktus sem viðmið og með þetta seiglufólk í huga og alltaf er hann jafn þægilegur í kuldanum og góður til að skýla sér á bak við. Maður endist líka lengur í kuldanum þegar maður er með Gaddvermi. Gaddvermir er unninn úr léttlopa.

Glimmer

Blái liturinn táknar lit sem Álfarnir eru hrifnir af. Kirkjan á húfunni er álfakirkja, húfuna á Álfakóngurinn. Og notar hann hana þegar hann fer á skauta í tunglsljósinu síðla kvölds.

Gullbrá

Ég ákvað með sjálfri mér að horfa á þetta verkefni tvískipt út frá huldufólki. Er huldufólk samtímans það sama og áður var eða er huldufólk samtímans fólk sem fer huldu höfði. Huldufólk samtímans: sem er á meðal okkar og reynir að falla inn í umhverfið svo það veki ekki athygli en það geta verið margar ástæður fyrir því. Með jarðlitunum og þá sérstaklega haustlitunum er hægt að hverfa inn í náttúruna með þessa hettu. Huldufólk samtímans: sem býr í björgum vill sjálfsagt ekki vekja mikla athygli með skærum litum en kýs samt að hlýja og glaða liti náttúrunnar getur farið huldu höfði með þessa hettu. 

Horn í horn

Það er til gönguleið sem liggur frá Hornvík á Ströndum til Hafnar í Hornafirði. Þessi leið er um 640 km löng og með viðkomu á marga flotta staði á leiðinni. Það má segja að hugmyndin að þessari lambhúshettu hafi komið eftir að hugsa til þessa sem leggja í slíkar langferðir. Fólk sem er fjarri mannabyggðum í ævintýraferð, oft fjarri fjölskyldunni í margar vikur (þó svo að hún sé líklega stolt af þeim fyrir að leggja út í þetta...). Huldufólk nútímans með bakpoka ;)

Hulda #1

Huldukona hefur ein

hettu þessa prjónað,

Svo hún geti, hlý og hrein,

höfði köldu þjónað.

Hulda #2

Huldufólk samtímans í mínum huga er það dásamlega fólk sem starfar við aðhlynningu aldraðra. Fólkið sem gefur af sér til þeirra sem hafa staðið vaktina á undan okkur. Í umræðunni er mest talað um hversu illa þessum einstaklingum er sinn en inn á milli eru manneskjur sem sinna þessu starfi af mikilli ástríðu og gefa allt sem þau geta til þeirra sem minnsta athygli fá. Hettuskjólið er hannað sérstaklega með þau í huga sem fara milli húsa í hvaða veðri sem er og oft í mikilli tímaþröng þar sem skjólstæðingar eru margir og tími skammur. Virkar sem notalegur hálskragi innandyra og enga stund að skella hettunni upp þegar strokkið er út í bíl í hríðarbyl og frosti... sem er nú ekki sjaldan :D

HULIN

Ég er hulin,

hulin inn í steypufrumskógi borgarinnar.

Ég er hulin fyrir augum manna,

og kvenna.

Ég verð að komast út!

Út úr frumskógi mannfólks,

út í auðnina,

út á hvasst hraunið,

út í mjúka mosan,

út þar sem ég er ekki hulin,

þar sem ég er frjáls.

Húsmóðirin

Þegar húsmóðirin fer í lambhúsin setur hún stundum á sig útsaumuðu hettuna í von um að huldufólk láti fremur sjá sig svo hún hafi gott samfélag.

Hvirfill í byl

Í öllu þessu óveðri í febrúar og mars sá maður oft fólk sem lét EKKERT stoppa sig í að fara út og hreyfa sig. Svona hvirfla sá maður poppa upp í öllum veðrum í vetur. Gular viðvaranir. Appelsínugular viðvaranir. RAUÐAR viðvaranir. Ég klappa fyrir þessu fólki sem bylurinn gerði að huldufólki. En auðvitað þarf það að hafa viðeigandi föt til að eiga við veðrið. Hvernig væri að eiga eina létta lambhúshettu. Þessi lambhúshetta með hvirfli ofan á er hönnuð með þetta fólk í huga. Hún hentar einnig fyrir þá sem vilja kannski frekar setja hana undir hjálminn fyrir hjólreiðarferðirnar í bandbrjáluðu veðri. 

Í minningu um gæruúlpu

Þegar pabbi fór út til náms nokkrum árum eftir stríð og Evrópa var enn í sárum sínum eftir heimsstyrjöldina síðari, tók hann með sér flotta úlpu sem var fóðruð með gæruskinni. Þessi ár sem hann var úti kom það fyrir að fólk spurði hann jafnvel á götum úti hvort hann væri til í að selja sér úlpuna sem hann gerði að sjálfsögðu ekki. Ég man sjálf eftir því sem krakki að sjá fólk í þess konar úlpum. Það sem mér fannst flottast við þessar úlpur var að það var hægt að renna hettunni í sundur að ofan og þá myndaðist kragi sem féll aftur á bakið á úlpunni í tveimur bogadregnum línum. Mér þótti þetta svo flott sem barn. Það er nú mörg ár síðan ég sá svona úlpu síðast, en þessi lambhúshetta er til minningar um þessar úlpur og eflaust eru á meðal okkar einstaklingar sem sakna sinnar gömlu góðu gæruúlpu. Eru kannski einhverjir hér í dag? Ert það kannski þú? Hver veit? 

Jarl

Í hólnum býr hann huldukarl.

Ég held hann heiti Jarl.

Hann fær ei kóvid karlinn sá,

því klókindi hann á:

Lambhúshettu löngum ber,

sem líklega hann alltaf ver.

Hann sleppur því við smitin

með snoturt hulin vitin.

Lóa

Á landamerkjum Reykhúsa og eyðibýlisins Klúku í Eyjafjarðarsveit er klettur neðst í brekkunum vestan við Eyjafjarðarbraut sem heitir Álfkonuklöpp. Sögur herma að þar hafi á vetrum sést loga ljós, einkum þegar bjart var af tungli og talið að þar byggi álfkona. Fyrsta kveikja að lambhúshettunni kom þegar ég fór að hugsa um þetta örnefni.

Í þjóðsögum Jóns Árnasonar er að finna fjölda þjóðsagna um álfa og huldufólk. Þar er meðal annars að finna sagnir um sauðfé álfa. Í þremur sögnum kemur fram að álfafé sé í ýmsum litum. Þannig er sagt frá að Svartárdal hafi fólk séð flekk af blárri ull sem breidd var til þerris upp með gili í fjallinu en þegar fólk ætlaði að vitja hennar var hún horfin og talið víst að álfar hefðu átt. Tvær sagnir eru úr Fljótum um lit á álfafé. Í annarri sögunni hvarf grá ær á fengitíma en skilaði sér hálfum mánuði síðar. Hún bar um vorið og var lambið allavega litt, blátt, grænt, rautt og gult. Þegar átti að fara að mjólka ána stuttu síðar var lambið horfið. Hin sagan segir frá grænu lambi sem kom ókunnugt inn i kindahóp, var látið inn með fénu en var horfið morguninn eftir. Þessar sögur urðu til þess að ég valdi að nota marglitt band i lambhúshettuna ásamt hvítri lambsull sem unnin var fyrir mig í Uppspuna. Mislita bandið er frá Þingborg.

Þekktar eru sögur um álfa sem ferðast um á jóla eða nýársnótt, bjóða sér inn hýbýli manna og halda veislu og dansa um nóttina. Ég hugsa mér að í slíkum ferðum á kaldri vetrar nóttu hafi lambhúshetta verið mikið þarfaþing og prjónaði því lambhúshettu sem hæfir skartbúnum huldumanni eða konu. Áberandi kantur i garðaprjóni minnir á kórónu eða ennisband og neðan við hann fellur skýlan prjónuð á með hálfklukkuprjóni og skýlir eyrum og hálsi en með opi fyrir andlit. Í kringum opið eru lykkjur teknar upp og prjónaður snúningur og loks fellt af með þriggja lykkju affellingu (1-cord) sem myndar mjúkan kant utan um andlitið.

Huldufólk samtímans er margs konar. Í samfélaginu eru margir hópar sem eru lítt áberandi. Þar má nefna þá sem eru utangarðs og eiga sér ekki öruggt heimili og þá sem vinna að hjálparstarfi án þess að ætlast til launa, t.d. björgunarsveitarfólk. Þar má einnig nefna fólk sem vinnur sína vinnu af samviskusemi í öllum veðrum og hefur þörf fyrir hlý höfuðföt. Mér er ofarlega í huga í því sambandi gangbrautarverðir við skóla og póstburðarfólk. Listinn er lengri, t.d. sjómenn og bændur og svo allir eldri borgararnir sem af mikilli elju fara út að ganga allan ársins hring til að styrkja sál og líkama. Þetta fólk er í raun huldufólk samtímans. Enginn veitir þeim athygli nema á sérstökum tyllidögum en þeim hæfir hlýr höfuðbúnaður ekki síður en veisluklæddum álfum þjóðsögum.

Lykkja

Prjónuð að miklu leyti úr jurtalituðu einbandi – úr ríki náttúru Íslands, þar sem huldufólk hefst við.

Máttarstólpi

Hvert er huldufólk nútímans? Mín túlkun er sú að það er fólkið sem vinnur störfin sem við veitum ekki athygli, við myndum sennilega ekki taka eftir nema ef þau myndu leggja niður störf. Ég kalla þetta fólk Máttarstólpa samfélagsins. Í Lystigarðinum á Akureyri sjáum við starfsfólkið útum allan garð að vinna á sumrin. Það sem við sjáum hins vegar ekki er að á veturna fer fram mikið starf þar og starfsfólkið þarf að vera úti hvernig sem viðrar. Lambhúshettan mín er hönnuð fyrir þá sem þurfa að vinna úti hvernig sem viðrar en gengur einnig fyrir þá sem kjósa útivist þrátt fyrir hvernig viðrar. Hún nær vel fyrir andlitið og passar undir hjálma og fer vel niður á herðar. Hin fullkomna útivistarhetta.

Norðurljós

Nú í vetur fórum við í ferð til að skoða norðurljósin og keyrðum auðvitað út fyrir borgina til að finna sem minnst fyrir ljósamengun borgarinnar. Þegar við keyrðum, að því sem við héldum að myndi vera afskekktur staður í u.þ.b. hálftíma keyrslu frá Reykjavík, áttuðum við okkur á því að það voru bílar alls staðar í kringum okkur og allir voru í sömu erindagjörðum. Sem sagt fólk út um allt hulið myrkri og vildi vera í myrkri Huldufólk nútímans með gemsa :) til að upplifa ljósadýrðhimnanna sem best. Í rauninni fannst mér þetta svolítið skondið. Venjulega vilja allir vera upplýstir, en þarna sóttist fólk eftir myrkrinu til að sjá ljósið. Þessi lambhúsetta var hönnuðu eftir þessa myrku ferð. Reyndar var ég auk þess að hugsa um fólk sem er óhrætt að nota liti í átt við Iris Apfel sem trúir að maður eigi að klæða sig í það sem manni líður vel í og það er auðséð að hún gerir það... (svo framarlega sem það er ekki svart) þó svo að hún sé orðin meir en 100 ára gömul. Hún er djörf með litina, svona smá ljós í myrkri og sannkölluð nútímamanneskja þótt gömul sé....

Spói

Huldufólk – (samanber Huldufólk samtímans) er alltaf gráklætt eða í föllitum klæðum, er það ekki?

Ugla

Hugmyndin á bak við lambhúshettuna: Þar sem þema samkeppninnar er „Huldufólk samtímans“ er hettan gerð með það í huga að sá sem setur hana upp sjáist illa eða ekki þar sem hún er smá röndótt! Samanber brandarann um manninn í smáröndóttu náttfötunum sem varð að koma tvisvar sinnum til þess að hann sæist!!

Umvafin

Vinkona mín á barnabarn sem sagði við hana um daginn: „Amma má ég ekki vera hjá þér, þú ert svo hlý.“ Já, þær eru hlýjar margar ömmurnar. Reyndar eru þær bara svona eitt dæmi um fólk sem oft sýnir hlýju, velvild og vináttu. Við viljum líklega öll svoleiðis fólk í kringum okkur, er það ekki? Þessi lambhúshetta er hönnuð með þetta hlýja fólk í huga. Hlý og vefur sig um okkur með mörgum þunnum þráðum. Það er oft löng saga sem fylgir svona vinum því vináttan byggist upp smátt og smátt, eins og efni sem vefst með mörgum þráðum í gegnum tímann meðan sambandið styrkist. Átt þú svona góðan hulduvin?

 

Eftirtalin fyrirtæki styrktu keppnina: