Bridging Textiles to the Digital Future

Bridging Textiles to the Digital Future (,,Frá hefðbundnum textíl til stafrænnar framtíðar") var rannsóknaverkefni Textílmiðstöðvarinnar, styrkt af Tækniþróunarsjóði Rannís. Verkefnið hófst í september 2017 og fól í sér greiningu á gömlum vefnaðargögnum, varðveittum í Kvennaskólanum á Blönduósi, auk uppbyggingar á stafrænum gagnagrunni. Verkefnið var kynnt og gagnagrunnur var formlega opnaður á sýningu Textílmiðstöðvarinnar á HönnunarMars í Reykjavík í júní 2020. Verkefninu lauk 31. ágúst 2020. Verkefnastjóri var Ragnheiður B. Þórsdóttir.  

Saga verkefnisins

Í Kvennaskólanum á Blönduósi er til mikið magn af vefnaðarmunstrum, uppskriftum og prufum, bæði frá því á dögum skólahalds og sem hafa verið gefin Kvennaskólanum til varðveislu. Um er að ræða öll frumgögn fjögurra íslenskra vefara og eins vefnaðarkennara sem starfaði við skólann á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar.

Gögnin eru í formi handskrifaðra vefnaðarmunstra, vefnaðarprufa og uppskrifta fyrir vefnað í vefstól. Textílmiðstöð Íslands hefur fengið að gjöf allar prufur og vefnaðarmunstur frá Vefstofu Guðrúnar Jónasardóttur vefnaðarkennara sem starfaði um miðbik síðustu aldar, og einnig gögn frá kennsluferli Guðrúnar í Textíldeild Myndlistar- og handiðnaskóla Íslands. Einnig mikið af kennslugögnum Sigríðar Jóhannsdóttur vefara og vefnaðarkennara. Kennslugögn í vefnaði, munstur og sýnishorn sem notuð voru á þeim áratugum sem Kvennaskólinn á Blönduósi starfaði, eru til að einhverju leiti og hafa Vinir Kvennaskólans haldið utan um þau gögn, svo og öll vefnaðargögn Sólveigar Arnórsdóttur vefnaðarkennara.

Umfang gangnanna er mikið, 1000 handskrifaðar blaðsíður af vefnaðarmunstrum og uppskriftum fyrir vefnað og yfir 1500 vefnaðarprufur sem þegar hefur verið komið til varðveislu. Hér er um ómetanleg frumgögn að ræða, sem afar mikilvægt er að varðveita, ekki síst vegna þess hversu mikilvægur vefnaður var hér á landi frá landnámi og fram á 20. öldina. Þau hafa því menningar-, hönnunar- og sagnfræðilegt gildi sem mikilvægt er að skrásetja. 

Umsókn til Tækniþróunarsjóðs

Árið 2017 var sótt um styrk úr Tækniþróunarsjóði Rannís og fékkst styrkur til þriggja ára. Ætlunin var að skrásetja, mynda, flokka munstrin og hanna rafrænan gagnagrunn sem er nú aðgengilegur hér á heimasíðu og hýsir bindimunstur, vefnaðarprufur og uppskriftir. 

Fyrsta árið fór nær eingöngu í skrásetningu gagna í tölvutækt form og ljósmyndun á þeim. Annað árið var unnið við áframhaldandi skrásetningu á gögnum, úrvinnslu þeirra þar sem bindimunstur voru unnin inn í Photoshop svo hægt væri að nýta þau í stafrænum vefnaði í TC2 vefstól. Einnig var lokið við að ljósmynda gögnin og unnið að flokkun þeirra. Á þriðja árinu var settur upp gagnagrunnur, prufur ofnar í stafrænum vefstól, ásamt því að ljúka skráningunni. Alls hafa yfir 2000 vefnaðarmunstur verið greind og unnin í WeavePoint.

HönnunarMars og formleg opnun gagnagrunnsins 2020

Haldin var sýning ,,Hefðbundin munstur í stafrænni framtíð" á HönnunarMars 24. - 28. júní 2020 þar sem gagnagrunnurinn var formlega opnaður og sýndar nýjar útfærslur á gömlum munstrum unnin úr mismunandi efnum. Guðbjörg Þóra Stefansdóttir aðstoðarmaður Ragnheiðar og tiskuhönnunarnemi hjá Central Saint Martins í London óf kápu úr bómull og íslenskri ull sem var einnig til sýnis.  Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra opnaði gagnagrunninn sem er aðgengilegur hér á heimasíðu Textílmiðstöðvar: https://www.textilmidstod.is/ undir flipanum ,,Vefnaður”.

Formleg opnun gagnagrunnsins 2020. Ljósmynd: Katrín Ólafsdóttir.