Samstarfsverkefni 2021

Ullarþon 2021. Nýsköpunarkeppni var samstarfsverkefni Textílmiðstöðvar Íslands og Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, styrkt af Framleiðnisjóði Landbúnaðarins. Markmið Ullarþonsins var að auka verðmæti ullarinnar, þá sérstaklega verðminnstu ullarflokkanna. Fyrsti liður Ullarþonsins var haldin var 25. - 29. mars þegar keppnin sjálf stóð yfir. Þann 17. apríl var tilkynnt hvaða lausnir komust áfram. Þau teymi sem komust áfram kynntu svo hugmynd sina fyrir dómnefndum. Alls bárust 63 gildar hugmyndir í fjórum flokkum. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson veitti þeim teymum, sem unnu í hverjum flokki 400.000 kr, og ullarkodda frá Ístex í verðlaun á sýningu Textílfélagsins á Hafnartorgi í Reykjavík í tengslum við HönnunarMars 2021 - sjá nánari upplýsingar hér. 
 
SHOPLIFTER 2021. Frá 3. júlí - 28. ágúst 2021 var hægt að skoða myndlistarsýningin ,,Boðflenna" í Hrútey á Blönduósi. Um var að ræða útilistaverk eftir listakonuna Hrafnhildi Arnardóttir (Shoplifter). Í verkinu stillti Shoplifter náttúruperlunni Hrútey og gervináttúruverkum sínum upp sem hliðstæðum sem einnig má skoða sem andstæður, samstæður eða gagnstæðar spegilmyndir. Samstarfsaðilar verkefnisins voru Blönduósbær, Textílmiðstöð Íslands og Íslandsstofa. Verkefnið hlaut styrk frá Uppbyggingarsjóði Norðurlands vestra, Myndstefi og Myndlistarsjóði. Sýningarstjórar voru Áslaug Thorlacius og Finnur Arnar - http://akleifum.is/ 
 
"Þráðhyggja" 2021. Verkefni styrkt af Nýsköpunarsjóði Námsmanna, unnið í samstarfi við Textílmiðstöð Íslands og Listaháskóla Íslands. Verkefnið snýst um að lengja líftíma textíls með endurnýtingu með þekktum íslenskum aðferðum á borð við að kemba, þæfa og spinna, og vinnur að því að kanna nýjar leiðir í efnisgerð. Ónýtt efni, sem annað hvort fellur til við gerð á flík eða hefur lokið sínu upprunalega hlutverki, er „af-vefað“ eða „af-prjónað“ og kembt niður í sína upprunalegu þræði. Út frá þeim þráðum verða nýttar þekktar jafnt sem óþekktar leiðir til þess að skapa efni í nýrri mynd. Textíllinn verður þróaður áfram í einstakar vörur og er verkefnið hugsað sem grunnur að endurvinnslu á textíl á Íslandi. Verkefnastjórar eru Sólveig Hansdóttir og Berglind Ósk Hlynsdóttir. https://www.youtube.com/watch?v=aSjYFx9bRkA 
 

,,Sól í sveit”: Styrkur til Húnavatnshrepps vegna uppbyggingar á textíltengdri ferðaþjónustu á Húnavöllum unnið í samstarfi við Textílmiðstöðina, styrkt af Sóknaráætlun landshlutasamtakanna.

Nordic-Baltic Scholarships, 2019 - 2022. Textíllistamiðstöð hlaut styrk frá Nordic Baltic Mobility Program (Nordic Culture Point), samtals €34.000 / 5.508.000.- sem gerir okkur kleift að bjóða 6 listamönnum frá Norðurlöndum og Eystrarsaltslöndum í textíllistamiðstöð. Josefin Tingvall og Petter Hellsing frá Sviðþjóð hlutu styrk til tveggja mánaða árið 2019; Kärt Ojavee frá Eistlandi og Søren Krag frá Danmörku 2020/21.