- Um okkur
- Textílmiðstöð
- Ós Textíllistamiðstöð
- TextílLab
- Fabricademy
- Vefverslun
Textílmiðstöð Íslands stendur fyrir tveimur viðburðum á HönnunarMars í ár:
Afhending verðlauna í Ullarþon á sýningu Textílfélagsins á Hafnartorgi 20. maí (kl. 17:00) og formleg opnun TextílLabs á Blönduósi 21. maí (kl. 14:00 - 20:00).
Forseti Íslands, hr. Guðni Th. Jóhannesson afhendir verðlaun í Ullarþoni, hugmynda- og nýsköpunarkeppni sem haldin var í samstarfi við Nýsköpunarmiðstöð Íslands 25. - 29. mars sl. Markmið var að finna leiðir til að auka verðmæti verðminnstu ullarflokkana með tilliti til hringrásarhagkerfisins. Þátttakendur voru yfir eitt hundrað manns sem skiluðu inn 63 lausnum í fjórum keppnisflokkum.
Dagana fyrir verðlaunaafhendinguna verða send út stutt myndbönd frá þeim þátttakendum sem völdust í 5 efstu sætin í hverjum flokki. Vinningar eru 400.000.- kr. fyrir bestu lausnina í hverjum flokki, ullarkoddar “Mosa” frá Ístex og 5 daga dvöl í Hallormsstaðaskóla fyrir eitt af liðunum til að vinna áfram með sína lausn.
TextílLab er á vegum Textílmiðstöðvar Ísland og það fyrsta sinnar tegundar á Íslandi. Það er staðsett á Blönduósi og gefur hönnuðum, frumkvöðlum, listafólki og nemendum aðgengi að stafrænni tækni til rannsókna, þróunar og nýsköpunar. Góðir rannsóknarinnviðir munu flýta fyrir innleiðingu nýrrar tækni í textíl á Íslandi, og stórauka tækifæri til rannsókna, hönnunar og framleiðslu nýrra vara, s.s. úr íslenskri ull. Verkefni hlaut uppbyggingarstyrk frá Innviðasjóði og er hluti af alþjóðlegu verkefni CENTRINNO sem Textílmiðstöð tekur þátt í, styrkt af Horizon2020 rannsóknaráætlun ESB.
Mennta- og menningarmálaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir og ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir koma til með að ávarpa gesti og að klippa í sameiningu á þráðinn þegar TextílLab verður opnað. Eftir formlegri opnun er opið hús. (Grímuskylda: Pössum upp á 2 metra regluna!) Þeir sem ekki geta mætt á staðinn geta kynnt sér TextílLabið á samfélagsmiðlum (Instagram: #textilmidstod #textilelabiceland)