- Um okkur
- Textílmiðstöð
- Ós Textíllistamiðstöð
- TextílLab
- Fabricademy
- Vefverslun
Textílmiðstöð Íslands stendur fyrir sýningunni ,,Hefðbundin munstur í stafrænni framtíð“ á HönnunarMars 2020 (athugið! ný dagsetning: 24. - 28. júní 2020), í samstarfi við Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Sýningin er staðsett að Hverfisgötu 82, Bismút gallerí í Reykjavík, og verða þar kynnt tvö verkefni sem sýna fram á möguleika stafrænnar tækni í vefnaði og hönnun.
Ragnheiður Björk Þórsdóttir, verkefnisstjóri og rithöfundur nýútkominnar bókar ,,Listin að vefa” og Guðbjörg Þóra Stefánsdóttir fatahönnunarnemi munu kynna ,,Bridging textiles to the digital future”, þriggja ára rannsóknaverkefni Textílmiðstöðvar styrkt af Tækniþróunarsjóði Rannís. Verkefnið felur í sér greiningu á gömlum vefnaðargögnum, varðveitt í Kvennaskólanum á Blönduósi, auk uppbyggingar á rafrænum gagnagrunni sem m.a. textíliðnaðurinn og textílhönnuðir munu hafa aðgang að. Þar með opnast möguleikar til að þróa ný munstur og nýta í nýsköpun í textíl og iðnaðarframleiðslu.
Sýndar verða prufur, efni og áklæði sem eru ofin í TC2 stafrænum vefstól þar sem munstrin byggja á gamalli vefnaðarhefð. Jafnframt verður sýndur afrakstur af samstarfsverkefni Myndlistarskólans í Reykjavík og Textílmiðstöðvar, ,,Nýsköpun í textíl”, styrkt af Nýsköpunarsjóði Námsmanna. Þar unnu fjórir nemendur í textílhönnun, grafískri hönnun og vöruhönnun stafrænar útfærslur af gömlu vefnaðarmunstrunum og tillögur að textílvöru fyrir Textílmiðstöðina.
Caroline Huf áströlsk kvíkmynda- og videolistakona sem dvaldi í Textíllistamiðstöð í janúar 2020 nýtti sér gömlu munstrin sem innblástur og til varð videolistaverk sem fléttar saman gamla og nýja tækni og verður á skjá á meðan sýningunni stendur yfir.
Formleg opnun verður miðvikudaginn 24. júní frá kl. 17:00 - 20:00. Aðra daga verður opið frá kl. 12:00 - 17:00.
Allir velkomnir!