- Um okkur
- Textílmiðstöð
- Ós Textíllistamiðstöð
- TextílLab
- Fabricademy
- Vefverslun
Árið 2020 er búið að vera erfitt ár fyrir okkur öll, en við hjá Textílmiðstöðinni erum að reyna að gera það besta úr aðstæðunum og halda okkur striki.
Vel hefur fiskast í hinum ýmsu sjóðum og hefur starfsemin aflað á annað hundrað milljónir í ýmis verkefni. Það stærsta er „CENTRINNO”, sem er samstarfsverkefni 26 aðila í níu Evrópuborgum, Amsterdam, Barcelona, Blönduós, Genf, Kaupmannahöfn, Mílanó, Paris, Tallinn og Zagreb. Í flokkun á borgunum var búinn til sérflokkur fyrir okkur: XS.
Verkefnið snýst um að nota menningararfinn sem innblástur til nýsköpunar. Á Íslandi er stefnt að uppbyggingu TextílLabs á Blönduósi, sem er það fyrsta hér á landi. Þar geta allir sem hafa áhuga fengið aðgang, lært á og unnið með ný stafræn tæki og tól: heimamenn sem aðrir, bæði innlendir og erlendir nemendur, grunnskólanemendur á svæðinu, hönnuðir og sérfræðingar. Sérstök áhersla er lögð á ull og umhverfisvæna nýtingu hennar.
Í því samhengi fengum við einnig styrk frá Innviðasjóði Rannís, sem ætlaður er til uppbyggingar innviða til rannsókna á textíl. Nú þegar höfum við fest kaup á nýjum stafrænum vefstól, nálaþæfingarvél, stafrænni prjónavél, laserskera, stafrænni útsaumsvél og vínylskera.
Gaman er að segja frá að þrátt fyrir Covid þá hafa nokkrir listamenn lagt á sig erfið ferðalög, sóttkví í Reykjavík, tvöfalda sýnatöku og óvissu með heimkomu til þess að vera í Textíllistamiðstöðinni. Nemendur frá Professionsskole í Kaupmannahöfn, Listaháskóla Íslands og einstaklingar í Textílfélaginu komu í námsdvöl eða sóttu námskeið hjá okkur. Tæpl. 2000 manns eru nú að fylgjast með Textíllistamiðstöðinni á Instagram, alls staðar frá úr heiminum.
Námsver er á sínum stað í Kvennaskólanum, en prófahald á þessu ári var í lágmarki sökum COVID-19 (í venjulegu árferði eru haldin yfir 100 próf á ári.) Okkur finnst mikilvægt að halda áfram að bjóða upp á þessa þjónustu og hafa hana nemendum að kostnaðarlausu.
Fastir starfsmenn Textílmiðstöðvarinnar eru ekki margir, alls þrír (Elsa Arnardóttir forstöðumaður, Katharina Schneider og Jóhanna Erla Pálmadóttir verkefnastjórar). Með okkur starfa einnig verkefnaráðnir starfsmenn, Ragnheiður Björk Þórsdóttir og Guðbjörg Þóra Stefánsdóttir sem unnu rannsókn um vefnað sem lauk í september. Svanhildur Pálsdóttir var ráðin markaðsstjóri Prjónagleðinnar í haust og er búin að kynna fyrir okkur fullt af góðum hugmyndum. Stefnt er á að halda Prjónagleði - Iceland Knit Fest, 9. - 13. júní 2021.
Hér á heimasíðu Textílmiðstöðvarinnar má svo finna upplýsingar um fleiri verkefni, stór og smá, sem við erum að vinna eða lukum á árinu.
Við viljum einnig nýta tækifæri og þakka öllum sem hafa lagt okkur lið við uppbygginguna hér á Blönduósi. Við vitum hvað tækifærin eru mörg (og fjöreggin eru ekki bara eitt!) og erum ávallt tilbúin í samstarf. Ef ykkur dettur skemmtilegt samstarfsverkefni í hug, ekki hika við að hafa samband!
Við óskum öllum heimamönnum, samstarfsaðilum og vinum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári,
Starfsmenn Textílmiðstöðvarinnar