Jólabréf Textílmiðstöðvarinnar

Annasömu ári er að ljúka hjá Textílmiðstöðinni! Okkur finnst hvetjandi að fá í auknum mæli fyrirspurnir og beiðni um samstarf. Fjölmiðlafólk, stjórnmálamenn og frumkvöðlar hafa heyrt af Textílmiðstöðinni og vilja kynna sér starfsemina og skoða TextílLabið. ,,Hvað er eiginlega í gangi hjá ykkur? Hvað nákvæmlega eru þið að gera? Eruð þið safn, sýning, skóli, eða hvað?“ 

Nei, við erum við ekki safn eða skóli og það eru fyrst og fremst listamenn sem dvelja hjá okkur sem halda sýningar. Textílmiðstöð Íslands er þekkingarsetur og það sem kallast ,,makerspace“ (sköpunarver) og ,,creative hub” (miðstöð fyrir skapandi fólk) á ensku. Staður þar sem t.d. hönnuðir geta aflað sér þekkingar, þróað verkefni og tengst öflugu tengslaneti. Við einbeitum okkur að öllu sem viðkemur textíl. Markmið okkar er að efla textíl á Íslandi og hringrásarhagkerfið.  

Af hverju? Af því textíll er einn af mest mengandi iðnaði í heiminum og fjórði stærsti umhverfisþáttur einstaklinga á eftir húsnæði, samgöngum og matvælum. Yfir 90% af textíl á Íslandi er fluttur inn, og svo hent. Mörg tækifæri liggja í staðbundinni framleiðslu, nýtingu íslensks hráefnis og eflingu þekkingar þar sem hefðbundin handverkskunnátta og ný tækni koma saman. Ef við finnum t.d. leiðir til að búa til nýtt efni úr afgangstextíl eða lita ull með bakteríum í staðinn fyrir kemískum efnum þá getum við framleitt umhverfisvænar vörur og skapað um leið atvinnutækifæri fyrir frumkvöðla. Þar á meðal teljast sauðfjárbændur sem búa til og selja sitt eigið band eða hönnuðir sem finna nýtt hlutverk fyrir ullina.

Til þess að þróa leiðir þarf að læra nýjar aðferðir, gera tilraunir og búa til prufur. Það þarf rými til þess, aðgang að sérfræðingum og tækjum. Textílmiðstöð Íslands býður upp á slíkt. 

Hjá okkur starfa sérfræðingar á sviði handverks og stafræns textíls. Við rekum rannsóknarinnviði í textíl (svokallað TextílLab), rými sem er útbúið sérhæfðum tækjum. Þau eru ekki aðgengileg annars staðar á landinu, eins og stafræn prjónavél, stafrænir vefstólar og nálaþæfingarvél. Við tökum á móti, hýsum og leiðbeinum nemendum, frumkvöðlum og textíllistafólki. Árið 2024 dvöldu yfir 80 listamenn frá 16 mismunandi löndum hjá okkur, þar að meðal Japan, Indlandi, Taiwan, Mexíkó, Argentínu og Brasilíu. Frumkvöðlar eins og Hanna Dís Whitehead og verðlaunahönnuðir eins og Signe Emdal frá Danmörku hafa komið til okkar að þróað nýjar vörur úr ull. 

Við sjálf þurfum stöðugt að afla okkur nýrra upplýsinga og þekkingar og því taka starfsmenn Textílmiðstöðvarinnar þátt í rannsókna- og samstarfsverkefnum innanlands sem og erlendis. Í núverandi verkefnum eins og t.d. ,,Tracks4Crafts” (styrkt af Europe Horizon 2022) og ,,Threads“ (styrkt af Interreg) vinnum við ásamt evrópskum samstarfsaðilum markvisst að því að finna lausnir fyrir áskoranir eins og textílúrgang og hvernig við menntum komandi kynslóðir í handverki og nýrri tækni. Ársfundur Tracks4Crafts var haldinn í Amsterdam í maí; „Kick-Off“ fundur í Threads með fulltrúum frá Finnlandi, Noregi, Írlandi og Svíþjóð var haldinn á Blönduósi í október.

,,En heitir þetta ekki Kvennaskóli, er ekki hægt að taka próf hjá ykkur og sækja námskeið og þess háttar?” 

Textílmiðstöð Íslands er staðsett í Kvennaskólanum á Blönduósi, yfir 100 ára gömlu skólahúsi með mikla sögu og sál sem veitir okkur og öllum sem dvelja hjá okkur mikinn innblástur. En stofnunin sjálf er ekki skóli sem býður upp á nám eða einingar. Það er hins vegar hlutverk Textílmiðstöðvar Íslands að efla háskólamenntun, en það er hluti af samningi þekkingarsetra á Íslandi við ráðuneyti háskóla, iðnaðar og nýsköpunar. Því sinnum við próftöku háskólanema og á árinu voru 79 próf tekin í Kvennaskólanum. 

Við erum í samstarfi við t.d. Listaháskóla Íslands og Myndlistarskólann í Reykjavík og tökum á móti nemendum og kennurum þeirra sem vilja læra á stafræn tæki og eða hefðbundið handverk. Við erum kennslustaður fyrir ,,Fabricademy“ sem er alþjóðlegt nám; þátttakendur í ,,Iceland Field School“ á vegum Concordia Háskólans frá Montreal dvöldu hjá okkur í þriðja skipti allan júní 2024. Nemendur frá ,,College of the North Atlantic“ komu í heimsókn í vor og frá University College Copenhagen til að læra útsaum. Við teljum mörg ónýtt tækifæri á því sviði sem myndu jafnframt efla ferðaþjónustu á Norðvesturlandi. Við bjóðum upp á námskeið og vinnustofur tengd textíl, en í ár voru það námskeið í stafrænum vefnaði og raftextíl auk fjölda námskeiða á Prjónagleði. 

,,Nú skiljum við, þetta er ótrúlega spennandi!“ sögðu fulltrúar frá Eim, samstarfsverkefni sem stendur fyrir nýsköpun og þróun á Norðurlandi, þegar þau komu í heimsókn í sumar. Þá voru þau nýbúin að fá leiðsögn um húsið þar sem þau nutu stórkostlegs útsýnis frá vefloftinu á þriðju hæð Kvennaskólans yfir ósinn og Norður-Atlantshafið. Þar á eftir fengu þau sýnikennslu í TextíLabinu. Bakteríulitaðar ullarprufur úr samstarfsverkefninu ,,Fjólublár“ fundust þeim sérstaklega áhugaverðar. Sjón er sögu ríkari. 

Að byggja upp sköpunaver og þekkingarsetur á landsbyggðinni er áskorun. Í hreinskilni sagt þá líður okkur starfsmönnunum stundum eins og Don Quixote að berjast á móti vindmyllum. En hugtök eins og ,,creative hub“ og ,,social enterprise“ (fyrirtæki eða stofnun sem er starfrækt með það meginmarkmið að leysa félagsleg, umhverfisleg eða samfélagsleg vandamál) eru að verða þekktari á Íslandi og skilningur á starfsemi eins og okkar er að aukast. Textílmiðstöðin hefur nýlega fengið fjárveitingu til að ráða starfsmann í TextílLabið sem gerir okkur kleift að halda því gangandi næsta ár. 

Það sem við erum núna að vinna að og viljum ná árangri með næstu misserin er samstarfsverkefni með sveitarfélaginu. Í því felst að við, íbúarnir í Húnabyggð, verðum best á Íslandi í að safna, flokka, endurvinna og endurnýta textíl. 

Við horfum með björtum augum til framtíðar og óskum ykkur öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári!