Jólakveðjur 2023

Loftmynd / Kvennaskólinn: Róbert Daníel Jónsson
Loftmynd / Kvennaskólinn: Róbert Daníel Jónsson

Það er orðið árleg hefð hjá okkur í Textílmiðstöð Íslands að skrifa jólabréf þar sem við segjum frá verkefnum ársins og því sem framundan er!

Árið var annasamt hjá okkur að venju, en við vitum að það er ekki öllum ljóst hver starfsemi Textílmiðstöðin nákvæmlega er. Það er margþætt! Starfsmenn Textílmiðstöðvarinnar taka þátt í alþjóðlegum rannsóknarverkefnum. Við höldum utan um Ós Textíllistamiðstöð og rekum TextílLab, sem er frumkvöðlasmiðja með sérhæfðum tækjum fyrir tilraunir á sviði textíls.

Sem dæmi um verkefni sem unnin eru í TextílLabinu má nefna Fjólublár, samstarfsverkefni við BioPol og Ístex sem hófst sumarið 2023. Það snýst um að þróa umhverfisvæna aðferð til að lita ullina með bakteríunni Janthinobacterium lividum sem gefur frá sér fjólubláan lit. Labið er opið á auglýstum dögum og hægt er að panta tíma hjá umsjónarmanni. Fjöldi hönnuða nýttu sér aðstöðina á árinu – sjá nánar hér á heimasíðu okkar (,,Frumkvöðlar í Labinu”). Því miður er Labið lokað nú í nóvember og desember vegna starfsmannabreytinga, en það verður aftur opið frá og með janúar þegar Haraldur Holti Líndal tekur við sem umsjónarmaður.

Mikil þörf er á frekari þróun náms á sviði textíls á Íslandi og er það líka verkefni sem Textílmiðstöðin vinnur að. Námsbraut á vegum Textíl Akademía, Fabricademy, var kennd í TextílLabinu frá september 2022 - apríl 2023. Nemendur, fimm samtals, dvöldu á Blönduósi á meðan á náminu stóð. Sýning á lokaverkefnum þeirra var hluti af dagskrá HönnunarMars í Reykjavík í maí.

Sum tæki sem aðgengileg eru í TextílLabinu eru ekki til annars staðar á landinu, eins og stafrænir vefstólar, nálaþæfingarvél og Kniterate sem er stafræn prjónavél. Einnig býr starfsfólkið okkar yfir mjög verðmætri þekkingu bæði á sviði hefðbundins handverks og stafrænnar þróunar og er það ástæðan fyrir því að nemendur frá íslenskum og erlendum skólum koma til okkar. Við tökum á móti nemendahópum allt árið um kring. Á þessu ári komu til okkar nemendur frá Húnaskóla, Listaháskóla Íslands, Verkmenntaskólanum á Akureyri, Myndlistaskólanum í Reykjavík og KP Handverksháskólanum í Kaupmannahöfn svo eitthvað sé talið.

Mikilvægur hluti í rannsóknarverkefnum styrktum af Horizon áætlun Evrópusambandsins er þátttaka í gagnasöfnun, vinnustofum og námskeiðum. Um þessar mundir tökum við þátt í tveimur stórum verkefnum, CENTRINNO og Tracks4Crafts, og því var árið 2023 einstaklega vinnu- og ferðasamt. Fundir í CENTRINNO voru haldnir í Kaupmannahöfn og Genf, en verkefninu er að ljúka nú eftir áramót. Eitt af markmiðum okkar í verkefninu var að þróa Textílmiðstöðina og búa til tilraunasmiðju (TextílLab) fyrir frumkvöðla og vekja athygli á tækifærum til nýsköpunar, menntunar og framleiðslu á sviði textíls.

Einnig að mynda tengslanet hér innanlands og með samstarfsfólkinu okkar staðsettu í Mílanó, Amsterdam, Tallinn, París, Kaupmannahöfn, Zagreb, Barcelona og Genf sem við getum byggt á. Við teljum að það hafi tekist!

Tracks4Crafts hófst í mars 2023 og snýst um að greina þarfir handverksfólks og þróa námskeið. Einnig að skoða hver séu núverandi viðhorf til hefðbundins handverks og hvað vanti upp til að verkkunnátta sé metin og viðurkennd sem bæði færni og þekking. Vinnufundir voru haldnir í Antwerpen og Florens þar sem við kynntum starfsemi Textílmiðstöðvarinnar og niðurstöður úr fyrstu vinnustofunni okkar um stöðu handverks á Íslandi.

Fleiri ferðir og fundir voru á dagskrá. Hluti starfsmannahópsins (við erum 7, en stöðugildin 3,75) fór til London til að taka þátt í Res Artis ráðstefnunni „Mind the Gap: Designing Residencies for everyone” og til Noregs til að kenna útsaum í tengslum við verkefnið ,,Fiber Focus”. Við unnum að undirbúningi námskeiðs fyrir frumkvöðla í textíl með Háskóla Íslands ,,Heldurðu Þræði” sem kennt var í annað skipti vorið 2023. Við skipulögðum Prjónagleði og í samstarfi við Federica Valli, framkvæmdastjóra Lottozero TextileLab í Prato á Ítalíu, settum við upp sýninguna ,,Ullarheimar” í Krúttinu á Blönduósi. ,,Wool in the North”, verkefni styrkt af NORA undir leiðsögn Textílmiðstöðvarinnar, lauk með fundi samstarfsaðilana á Íslandi og kynning á ullartengdum ferðum á ráðstefnu í Danmörku í haust.

Ós Textíllistamiðstöð tók á móti listamönnum frá 19 mismunandi löndum. Við sinntum fjarprófum háskólanema á svæðinu (það er hluti af hlutverki okkar sem Þekkingarsetur) og byrjuðum undirbúning að stofnun textíl-klasa á Íslandi og þátttaka okkar í Þráðaþon hugmyndasmiðju 5.-6. janúar 2024 - en meira um það síðar.

Nú getum við farið að láta okkur hlakka til hátíðanna!

Við óskum öllum heimamönnum, samstarfsaðilum og vinum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári og þökkum fyrir ánægjuleg samstarf á líðandi ári,

Starfsfólk Textílmiðstöðvarinnar